Avatar – Verkefnið í fullri lengd

Höfundur: Gyða Björk Björnsdóttir
Ritstjóri: Ester Ýr Jónsdóttir

Til baka

Markhópur: Unglingastig grunnskóla og framhaldsskóli.

Lykilorð: Vistkerfi, líffræðilegur fjölbreytileiki, auðlindanýting, sjálfbærni, náttúruvernd, stjörnulíffræði, vistspor.

Lengd: Breytilegt. Myndasýning tekur 4 kennslustundir (mögulega heimaverkefni), umræðutími ein til tvær kennslustundir, möguleiki á frekari úrvinnslu tvær til fjórar kennslustundir.

Verklegt/vettvangsferð: Nei.

Efnisyfirlit

Markmið
Hæfniviðmið og tengsl við námskrá
Lykilhugtök
Efni

Lesefni og kveikjur
Tenglar og myndbönd
Vinna nemenda
Verklegar æfingar/Vettvangsferð
Álitamál, áskoranir og tækifæri

Námsmat

Markmið

Zhangjiajie National Forest Park í Kína

Mynd 1: Zhangjiajie National Forest Park í Kína eftir severin.stalder – Eigin vinna, CC BY-SA 3.0, Link

Ný aðalnámskrá leggur áherslu á sjálfbærni sem grunnþátt menntunar. Nemendur eiga að geta horft til framtíðar, vita að allir eru ábyrgir og því þarf að þekkja og skilja náttúruna. Þá fyrst er hægt að takast á við ágreiningsefni og álitamál. Mörg hæfniviðmið ólíkra greinasviða eru tengd þessu og miða að því að gera nemendur meðvitaða um umhverfismál og efla gagnrýna hugsun, gildismat og rökræður. Ágæt leið til að nálgast þessi viðmið er að horfa á kvikmyndina Avatar og spyrja spurninga sem skapa umræður.

Góð og vinsæl kvikmynd getur verið heppileg kveikja og kennsluefni í ýmsum viðfangsefnum í náttúrufræðikennslu. Nemendur eru jákvæðari fyrir rökræðum og tilbúnir að takast á við ágreiningsefni og álitamál þegar hægt er að tengja þau við áhugamál og þá miðla sem þau nota mest í dag.

Bíómyndin Avatar er í leikstjórn James Cameron og var frumsýnd í desember 2009. Myndin byggir ekki á bók, heldur er þetta ævintýraheimur sem skrifaður er fyrir myndina.

Avatar gerist í framtíðinni á litlu tungli sem heitir Pandóra. Á Pandóru býr ættbálkur sem nefnast Na´vi en það eru 3 metra háir frumbyggjar bláir að lit sem hafa skýr einkenni mannfólks. Þetta eru friðsamar verur sem lifa í sátt við umhverfi sitt og sýna náttúrunni virðingu. Þetta er hefðbundið þema – ást og græðgi – vondir menn og gott fólk. Sagan er einföld en með ljúfum boðskap um náttúruvernd, auðlindir og rányrkju.

Þegar þetta er skrifað (2016) er von á að minnsta kosti tveimur framhaldsmyndum skv. Kvikmyndavefnum Svarthöfða. Cameron leikstjóri er mjög upptekinn af náttúruvernd og mun beina sjónum sínum að háskanum sem lífríki sjávar stafar af mengun, ofveiði og loftslagsbreytingum í næstu mynd, Avatar 2 sem mun að miklu leyti gerast undir yfirborði sjávar á plánetunni Pandóru.

Margar leiðir eru færar til að tengja Avatar við náttúruvísindi. Hægt er að horfa á myndina með stjörnufræði, líffræði (bæði vistfræði og lífeðlisfræði), eðlisfræði, efnafræði og umhverfisfræði í huga – allt í einum potti eða að velja ákveðnar áherslur til að taka fyrir. Líka er hægt að skoða aðkomu sérfræðinga að kvikmyndaframleiðslunni og hvernig þeir koma við sögu við sköpunarverkið – opna fyrir að ekki allir líffræðingar starfi í lopapeysum eða hvítum sloppum o.s.frv. Enn einn vinkillinn væri að skoða hvaða náttúrufyrirbæri og lífverur hafa verið innblástur fyrir sköpun vistkerfisins á Pandóru, samanber mynd 1 hér að ofan sem er frá Kína og varð kveikja Camerons að Halleluja fjöllunum í Avatar.

Markmið þessa verkefnis getur því verið háð aðstæðum og er það að sjálfsögðu undir nemendahópnum og kennaranum komið hverjar áherslurnar eru. Megintilgangurinn er að nemendur geti útskýrt og rætt afstöðu sína til náttúru og samfélags, horft til framtíðar, metið á skýran og sjálfstæðan hátt og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra þátta tengda samfélagi, náttúru, umhverfi og tækni.

Hæfniviðmið og tengsl við námskrá

Í aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið (2013) segir m.a.

Hæfni í náttúrugreinum felst í þekkingu og leikni, en einnig í viðhorfum til náttúru, tækni, samfélags og umhverfis. […] Nám í náttúrugreinum stuðlar að því að nemendur viti hvað þeir vita og hvað þeir geta, og viti hvernig best er að beita vitneskju sinni, þekkingu og leikni til að hafa áhrif á umhverfi sitt og bæta það.

[…]

Áhersla er lögð á að nemendur séu vísindalæsir. Í því felst að þeir geti lesið texta um náttúruvísindi sér til gagns, notað hugtök úr náttúrugreinum í daglegu lífi og skilið náttúruleg og manngerð fyrirbæri. Auk þess geri þeir sér grein fyrir samspili manns og náttúru og valdi mannsins yfir tækni. Þessi hæfni eflir skilning þeirra á nútímasamfélagi og hjálpar þeim að taka skynsamlegar ákvarðanir í málefnum sem varða tengsl manns og náttúru. Nemendur fái tækifæri til að taka afstöðu til verndunar og nýtingar náttúruauðlinda og sjálfbærrar þróunar. Rökræða álitamál sem varða umgengni við náttúruna, tækni og nýjustu vísindi. Þannig eflist þekking og skilningur nemenda á grunvallarmarkmiðum sjálfbærrar þróunar, ásamt vilja til að starfa í anda þeirra.

Hér verður fyrst og fremst horft til hæfniviðmiða náttúrugreina við lok 10. bekkjar grunnskóla skv. aðalnámskrá grunnskóla, greinasvið (2013).

Geta til aðgerða

  • tekið rökstudda afstöðu til málefna og komið með tillögur um hvernig megi bregðast við breytingum en um leið tekið mið af því að í framtíðinni er margt óvisst og flókið.

Gildi og hlutverk vísinda og tækni

  • unnið með samþætt viðfangsefni með vinnubrögðum náttúrugreina og tekið gagnrýna afstöðu til siðferðilegra þátta tengdum náttúru, umhverfi, samfélagi og tækni.

Ábyrgð á umhverfinu

  • tekið þátt í að skoða og skilgreina stöðu umhverfismála á heimsvísu og rætt um markmið til umbóta.

Að búa á jörðinni

  • útskýrt og rætt ástæður náttúruverndar.
  • gert grein fyrir stöðu jarðar í himingeimnum og áhrifum hennar á líf á jörðu.

Lífsskilyrði manna

  • lýst hringrás efna og flæði orku í náttúrunni, útskýrt ljóstillifun og bruna og gildi þeirra.

Heilbrigði umhverfis

  • gert grein fyrir verndun og nýtingu náttúruauðlinda í tengslum við sjálfbæra þróun.

Tengsl við grunnþætti menntunar:

Læsi: Hér reynir á myndlæsið, taka eftir atriðum sem ekki eru alltaf í forgrunni og rýna í umhverfið.

Sjálfbærni: Má segja að hugtakið tengist meginþema myndarinnar .

Lýðræði og mannréttindi: Nemendur taka afstöðu til ýmissa mála í umræðum sem hvetja til gagnrýninnar hugsunar þar sem ólík sjónarmið kunna að koma fram. Það reynir á dómgreind og þjálfun í að finna lausn vandamála og mótar gildismat og siðferði nemenda.

Jafnrétti: Hér þarf að leita eftir ólíkum sjónarmiðum og hvetja nemendur til að rökstyðja mál sitt. Nemendur geta leitt umræður um ákveðin viðfangsefni að eigin vali.

Heilbrigði og velferð: Umræða í hóp styrkir félagslega færni nemenda og þar með félagslegt heilbrigði.

Sköpun: Margar spurningar og áskoranir er varða framtíðina hvetja til frumkvæðis og auka forvitni nemenda.

Lykilhugtök

  • Vistkerfi (e. ecosystem) má skilgreina sem safn allra lífvera er hafast við í afmörkuðu rými af tiltekinni gerð, ásamt öllum verkunum og gagnverkunum meðal lífveranna og tengslum þeirra við lífræna jafnt sem ólífræna umhverfisþætti sem tilheyra kerfinu, svo sem loft, vatn, jarðveg og sólarljós. Vistkerfishugtakið tekur þannig bæði til þess sem er lifandi í kerfinu og líflaust, hvort sem hið líflausa er lífrænt eða ekki. Tengsl milli þátta í vistkerfum eru oft afar flókin og erfitt getur verið að átta sig á ferli og umfangi sumra þeirra. Einn mikilvægasti undirstöðuþátturinn í vistkerfishugtakinu er hringrás efna og flæði orku milli fæðuþrepa í fæðuvef viðkomandi kerfis. Sjá nánar um skilgreiningu hugtaksins í Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (2011).
  • Líffræðilegur fjölbreytileiki spannar alla lifandi náttúru, einingarnar sem hún er byggð úr, birtingarformin sem hún tekur og þá lífrænu og ólífrænu ferla sem móta hana. Sjá nánar um skilgreiningu hugtaksins í Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (2011).
  • Auðlindanýting: Auðlind táknar eitthvað sem menn geta gert sér auð úr sem í nútíma samfélagi þýðir það að menn geti nýtt sér fyrirbærið til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi. Auðlindir Jarðar eru margar eftirsóttar og verðmætar og sumar þeirra lífsnauðsynlegar eins og ferskvatn og gróðurmold. Átök í heiminum stafa oft af baráttu um auðlindir og með stöðugri fjölgun mannkyns verður eftirspurn meiri. Auðlindanýting segir til um hvernig við nýtum auðlindir Jarðar og verður að byggjast á hringrásarnýtingu með skynsemi og endurvinnslu í huga. Sjá nánar í bókinni Um víða veröld – Jörðin eftir Hilmar Egil Sveinbjörnsson.
  • Sjálfbærni er sú þróun sem fullnægir þörfum samtíðarinnar án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til að fullnægja sínum þörfum. Náttúruverndarlög eiga að stuðla að vernd og nýtingu auðlinda á grundvelli sjálfbærrar þróunar. Jafnan er litið svo á að með sjálfbærri nýtingu auðlinda sé leitast við að tryggja jafnvægi milli þriggja grundvallandi þátta, þ.e. efnahagslegrar og samfélagslegrar þróunar og verndun náttúru. Sjá nánar um skilgreiningu hugtaksins í Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (2011).
  • Náttúruvernd, hugtakið náttúruvernd er mjög víðtækt hugtak og tekur í sinni víðustu merkingu til verndar á öllum þáttum náttúrunnar bæði lifandi og dauðum. Sjá nánar um skilgreiningu hugtaksins í Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands (2011).
  • Stjörnulíffræði (e. astrobiology) er tiltölulega ný vísindagrein sem byggir þó á gömlum grunni. Hún er sammengi þeirra sviða líffræði, jarðfræði, efnafræði, eðlisfræði og stjarnvísinda sem fjalla um uppruna og þróun lífs í víðu samhengi. Stjörnulíffræðin er þó meira en slitur annarra vísindagreina; hún sameinar undir einum hatti öll þau fræði sem varpað geta ljósi á þá meginspurningu hvernig lífið varð til og hvort við séum ein í heiminum. Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.
  • Vistspor er mælikvarði á það hvernig maðurinn nýtir auðlindir Jarðar og hversu miklum úrgangi eða mengun er skilað út í náttúruna. Eitt vistspor lýsir jafnvægi milli manns og náttúru. Árið 2012 var vistspor mannkyns 1,5 sem táknar að við nýtum auðlindir Jarðar 1,5 sinnum hraðar en hún nær að endurnýja þær. Vistspor er oft reiknað út fyrir einstaka þjóðir og er t.d. 8 í BNA en 1 í Angóla. Sjá nánar í bókinni Um víða veröld – Jörðin eftir Hilmar Egil Sveinbjörnsson.

Efni

Lesefni og kveikjur

Kvikmyndin Avatar er kveikjan að umræðum. Ef svigrúm er til að horfa á myndina í tímum er það mjög gott, jafnvel hægt að búta hana niður í hluta og taka ólík viðfangsefni fyrir. Mögulega er hægt að hvetja nemendur til að horfa á myndina heima – jafnvel nýta tíma sem falla niður vegna forfalla. Það er ekki hægt að stóla á að nemendur muni eftir myndinni eða hafi séð hana einhvern tímann áður. Mjög mikilvægt er að hafa góða kynningu og sýna t.d. stutt myndbönd (Pandóra uppgötvuð) myndband áður en horft er á myndina sjálfa. Jafnframt er nauðsynlegt að opna umræðuna og jafnvel rifja upp nokkur hugtök. Hugsanlega unnið eftir KVL aðferð, krossglímu eða með hugtakakort sem allt eru góðar aðferðir til að vinna með hugtök, upprifjanir og tengingar. Fleiri góðar aðferðir er að finna á vef Guðmundar Engilbertssonar, Orð af orði.

Þankahríð þar sem kennari varpar fram spurningum eins og

… um hvað fjallar myndin?
… hver eru viðhorf hersins, viðhorf vísindamannanna, viðhorf Na‘vi fólksins?
… hvenær gerist myndin?
… hvernig er lofthjúpurinn samsettur? … er súrefni? … er eldur?
… eftir hverju eru mennirnir að slægjast á Pandóru?
… hverjar eru eiginlegar auðlindir tunglsins?
… hvernig tengjast Pandórubúar náttúrunni?
… hvað er vitað um segulsvið á tunglinu?
… hefur þyngdarkraftur áhrif á stærð lífveranna?
… svipar lífríki Pandóru til þess sem við þekkjum á Jörð? Hvað er líkt og hvað ólíkt?
… hvaða þættir í myndinni eru mjög ótrúverðugir?
… hve langt er til Pandóru frá Jörðinni?
… hver er munur á tungli, reikistjörnu og sól?
… er líklegt að slíkt tungl fyrirfinnist í geimnum?
… hvert er trúlegt vistspor Na‘vi á Pandóru?

Og sjálfsagt margt fleira sem kennara og nemendum dettur í hug að spyrja og leita svara við.

Tenglar og myndbönd

Vinna nemenda

Umræður og málstofur. Best ef nemendur velja spurningar og umræðuefni. Hér er kennarinn í því hlutverki að hvetja nemendur til málefnalegra umræðna og stýra umræðunni farsællega, ef þarf, þannig að allir fái tækifæri til að segja sína skoðun og að umræðan leiði til málefnalegrar niðurstöðu.

  • Nemendur eða kennari skiptir í hópa. Dæmi um umræðuefni koma frá nemendum.
  • „Hvað ef …?“ Nemendur velta fyrir sér spurningum og skrá niðurstöður.
  • Einn, tveir, allir. Nemendur skrifa niður spurningar. Spurningunum er dreift og hver og einn á að svara, síðan setjast tveir og tveir saman og koma sér saman um eitt svar, síðan á stærri hópur að vera sammála um eitt svar og að lokum allir. Umræður í lokin.
  • Pallborðsumræður. Nemendur velja sér viðfangsefni, kynna sér málið og flytja svo stutta kynningu. Að lokinni kynningu eru umræður og tekið við spurningum úr sal.
  • Málfundur. Hópnum skipt í tvennt þar sem annar hlutinn er t.d. nýtingarsinnar sem vilja auka námugröft en hinn náttúrusinnar sem berjast fyrir verndun auðlinda. Hóparnir þurfa að rökstyðja sínar skoðanir. Þjálfun í að hlusta á skoðanir annarra og færa rök fyrir máli sínu. Kennsla um fundarsköp og fundarstjórn.

Raunveruleg viðfangsefni og rannsóknarvinna.

Christmas tree worm.jpg

Mynd 2: Christmas Tree Worm eftir Nick Hobgood – Eigin vinna, CC BY-SA 3.0, Link.

  • Kennari sýnir myndir af mengun eða náttúruspjöllum. Nemendum skipt í hópa þar sem hver hópur fær eitt viðfangsefni, ræðir vandamálið og kemur með tillögur um lausnir og hvernig hægt er að koma í veg fyrir slíkt.
  • Kennari kemur með dæmi um lífverur og náttúru á Jörðinni sem var innblástur fyrir vistkerfið á Pandóru. Nemendur finna fleiri dæmi og kynna svo fyrir samnemendum.
  • Kennari kynnir töflur og gröf fyrir vistspor okkar. Hugmyndir að verkefnum má finna á verkefnavef hjá Menntamálastofnun (áður Námsgagnastofnun) um náttúru Íslands.
  • Heimurinn minn, samstarfsvefur Umhverfisstofnunar og Námsgagnastofnunar (nú Menntamálastofnunar) með fullt af gagnvirkum verkefnum, þemaverkefnum og vefleiðöngrum. Þar er  meðal annars vefleiðangur um skiptingu auðæva Jarðar.
  • Orkuvinnsla og framtíðin, fínt að skoða samantekt og kennsluhugmyndir á vef Norden i skolen.
  • Gagnvirkur heimsatlas Globalis sem er samstarfsverkefni Félaga Sameinuðu þjóðanna á Norðurlöndum. Hægt er að nálgast kort og gröf og er tilgangurinn að opna augu fólks fyrir ólíkum samfélögum og áhrifum mannsins á Jörðina.

Sköpun.

  • Nemendur skapa umhverfi og vistkerfi á framandi stað. Hægt er að vinna með hugarkort, veggmyndir, leira og gera jafnvel stuttmynd. Auðvelt að nota hugtök úr vistfræði, huga að frumframleiðendum o.s.frv.
  • Taka viðtal við lífveru.
  • Gera fréttaþátt og búa til fréttir tengdar viðfangsefninu.
  • Tjáning, leiklist, söngur eða dans sem ætti að vekja fólk til umhugsunar um vistspor sitt.

Pandorapedia – skoða lífverurnar og kynna sér vistkerfið.

Margar hugmyndir sem hér koma fram eru fengnar úr kennsluleiðbeiningum, sérstaklega má mæla með kennarahefti með bókinni Um víða veröld – Jörðin.

Eins er upplagt að hafa í huga gagnrýna hugsun og siðfræði, gott að lesa sig til.

Verklegar æfingar/Vettvangsferð

Engin verkleg æfing eða vettvangsferð er fólgin í verkefninu.

Álitamál, áskoranir og tækifæri

Þegar við horfum til framtíðar koma upp ótal mörg álitamál og mörg væri hægt að fjalla um út frá bíómyndinni Avatar.

Eitt þeirra varðar nýtingu auðlinda Jarðarinnar. Er hún með ábyrgum hætti í dag? Hvaða orkukostir eru væntanlegir til að standa undir efnahagslegum þörfum kynslóða sem nú búa á Jörðinni? Hvað með börn og barnabörn nemenda? Hve langt getum við spáð í framtíðina? Mun skortur á náttúruauðlindum verða svo víðtækur að hann ógni lífsgæðum og jafnvel lífi komandi kynslóða?

Annað væri tengt umgengni Jarðarbúa við móður sína. Getum við lifað í sátt við náttúruna á sjálfbæran hátt? Hvernig má minnka vistsporið? Munum við hverfa til búskaparhátta fortíðar? Hver verður mannfjölgunin á heimsvísu?

Þriðja hugmyndin gæti tengst tækniþróun og geimrannsóknum. Nú þegar er rætt um að byggja upp á tunglinu. Hver má það? Og þá koma upp ýmis samfélagsleg viðhorf.

Fjórða dæmið gæti verið tengt lífbreytileika Jarðar og varðveislu hans. Þar gætu komið umræður um kóralrif og súrnun sjávar eða eyðingu regnskóga.

Og svona mætti halda áfram.

Með því að horfa á myndina og rökræða álitamál tengd umgengni við náttúru, tækni og nýjustu vísindi má gera nemendur meðvitaða, efla skilning þeirra og fá þá til að taka afstöðu. En þá er líka nauðsynlegt að horfa til þess hvaða lausnir eru í boði. Hvaða nýjir orkukostir eru? Hvernig má minnka vistsporið? Hvaða áhrif hafa tækninýjungar á framtíðarþróun? Hverju orkar hver einstaklingur?

Og að lokum þá er mikilvægt að muna að huga að jákvæðum lausnum – ekki skilja nemendur eftir vonlausa um framtíðina. Enda umræðu á að tína til allt það sem við getum gert til að gera framtíðina sem allra besta fyrir komandi kynslóðir.

Námsmat

Vegna þátttöku í umræðum þá er hér meðfylgjandi matslisti (Word / PDF) sem hver og einn kennari getur aðlagað að sínu leiðsagnarmati. Gott er að nemendur fái eintak í upphafi og skili svo í lok verkefnisins. Matið er leiðbeinandi og hér verður ekki sett fram tillaga að lokamati. Ef kennari og nemandi eru mjög ósamstíga í námsmatinu þá kallar það á samtal þeirra á milli.

 

 

Til kennara: Allar ábendingar eru vel þegnar og ef þú betrumbætir þetta námsefni þætti okkur gott að fá nýja útgáfu til birtingar.

esteryj@hi.is eða svavap@hi.is