Hafið – Hvað getum við gert við plastið í sjónum? – Verkefnið í fullri lengd

Höfundur: Ólafur Örn Pálmarsson
Ritstjóri: Birgir U. Ásgeirsson og Ester Ýr Jónsdóttir

Til baka

Markhópur: Nemendur í 8.-10. bekk.

Lykilorð: Rusl, plast, mengun, Great Pacific Patch.

Lengd: 2-4 kennslustundir.

Verklegt/vettvangsferð: Í sjávarútvegsfyrirtæki (ef mögulegt).

Efnisyfirlit

Markmið
Hæfniviðmið og tengsl við námskrá
Lykilhugtök
Efni

Lesefni og kveikjur
Tenglar og myndbönd
Vinna nemenda
Verklegar æfingar/Vettvangsferð
Álitamál, áskoranir og tækifæri

Námsmat
Heimildir

 

Markmið

Hafið er nátengt lífi og atvinnu Íslendinga. Mikilvægt er að við þekkjum hafið eins vel og kostur er. Mörg störf eru tengd sjávarútvegi og skapar hafið mikilvægan sess í sögu og menningu lands og þjóðar. Til að Íslendingar geti lifað í návígi við hafið er þörf á því að umgangast hafið á sjálfbæran hátt.

Í þessu verkefni þá læra nemendur um plast á ákveðnu svæði í heiminum. Svæðið sem nemendur læra um er stórt hafsvæði sem er fullt af rusli, aðallega plast og er tvöfalt stærra en Texas fylki Bandaríkjanna og rúmlega þrettán sinnum stærra en Ísland. Að auki læra nemendur um hvernig plast hefur áhrif á líf lífvera í sjónum. Nemendur átta sig á staðsetningu á Great Pacific Garbage Patch sem er á milli San Francisco og Hawaii. Að lokum átta nemendur sig á hvaða áhrif ruslið í sjónum hefur og hvernig þessi mengun verður til.

Hæfniviðmið og tengsl við námskrá

Verkefnið tengist beint sjálfbærni sem einn af lykilþáttum menntunar skv. Aðalnámskrá grunnskóla 2013: „Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.“

Hæfniviðmið um verklag sem má sérstaklega tengja þessu verkefni eru að nemandi getur:

  • tekið rökstudda afstöðu til málefna og komið með tillögur um hvernig megi bregðast við breytingum en um leið tekið mið af því að í framtíðinni er margt óvisst og flókið
  • aflað sér upplýsinga um náttúruvísindi úr heimildum á íslensku og erlendum málum
  • tekið þátt í að skoða og skilgreina stöðu umhverfismála á heimsvísu og rætt um markmið til umbóta

Hæfniviðmið um viðfangsefni sem má sérstaklega tengja þessu verkefni eru að nemandi getur:

    • útskýrt og rætt ástæður náttúruverndar
    • gert grein fyrir verndun og nýtingu náttúruauðlinda í tengslum við sjálfbæra þróun

Lykilhugtök

  • Auðlindir: Það sem menn geta nýtt sér „til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn…merking orðsins „auðlind“ er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekki endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma.“ Sjá á Vísindavefnum.
  • Endurnotkun: Endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd. (Dæmi; húsgögn, fatnaður, bækur…). Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
  • Endurvinnsla: Endurframleiðsla úr úrgangi til upprunalegra eða annarra nota en ekki orkuvinnsla. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
  • Endurnýting: Hverskonar nýting önnur en endurnotkun, t.d. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
  • Great Pacific Patch er safn af rusli sem er í Norður-Kyrrahafi á svæði sem nær frá Norður Ameríku til Japan  (Great Pacific garbage patch, Wikipedia 2015)
  • Hráefni: Óunnið efni í náttúrunni, efni notað í iðnaði, efni sem e-ð annað er unnið úr (Mörður Árnason 2007).
  • Mengun verður vegna aðskotaefna í náttúrunni og veldur henni skaða. Mengun getur verið á formi efnamengunar og mengunar að völdum orku eins og hita, ljóst og hávaða. (Pollution, Wikipedia 2015)
  • Plast: Lífrænt gerviefni sem var fundið upp fyrir um 100 árum. Það er búið til úr náttúrulegum efnum sem eru olía og gas. Plast er búið til með efnahvörfum sem kallast fjölliðun. (Promens, 2013)
  • Úrgangur: Það sem gengur af e-u, afgangur, leifar, slitur – rusl, sorp (Mörður Árnason 2007).

Efni

Lesefni og kveikjur

Prezi kynning á uppsöfnun rusls í Kyrrahafinu og myndband sem er hægt að hafa til hliðsjónar þegar að kynning fyrir nemendur er skipulögð:

Efni um Great Pacific Patch í sjónum:

Í fyrsta lagi á Wikipedia, í öðru lagi fréttagrein úr The Telegraph og í þriðja lagi myndbandskveikja um hafsvæðið á YouTube sem nefnist Great Pacific Garbage Patch – Ocean Pollution Awareness

Útskýring á YouTube um ruslsvæði í sjónum almennt:

Ljósmyndir úr sjónum af rusli má finna hér.

Hér má finna myndbönd sem gætu vakið áhuga. Í fyrsta lagi myndband af fuglalífi sem hefur hlotið skaða vegna rusls. Í öðru lagi myndband um verndum sjávar. Í þriðja lagi myndband um ferðlag plastpoka úr borginni sem endar úti í sjó.

LEGO samsteypan vinnur í því að nota efni í Lego-kubbum sem leysir plastið af. Hér má lesa grein um þessar breytingar.

Vinna nemenda

Vinna nemenda er þríþætt. Fyrsti hluti er umræða í kennslustund sem kennari tekur með nemendahópnum í heild. Ætlunin er að vekja áhuga nemenda og hvetja þá til umhugsunar. Annar hluti er hópavinna nemenda þar sem nemendur ræða og rýna í efnið ásamt því að greina frá hugmyndum sínum skriflega. Þriðji hlutinn er unnin með bekknum í heild. Þá er áfram unnið með efnið og ný hugtök kynnt til sögunnar.

Fyrsti hluti.

Umræður með nemendum um rusl í sjónum og hvað við getum gert til þess að stöðva þessa þróun.

Nemendur horfa á myndband um Ocean Garbage Pitch. Hvaða raunverulega vandamál eru myndböndin að sýna? Hvað getum verið gert til þess að draga úr þessum vandamálum?

Í framhaldi er unnt að skoða saman þennan Fésbókarhóp um að Stykkishólmur sé að stefna að því að vera laus við  poka úr plasti.

Árið 2007 þá setti San Francisco reglur um að stórmarkaðir hefðu 6 mánuði og apótek hefðu 12 mánuði til þess að hætta að plastpoka.

Í mörgum löndum þá hefur annað hvort verið bannað að nota plastpoka eða settir mjög háir skattar á þá: Suður Afríka, Eritrea, Rúanda, Sómalía, Tanzania, Kenýa, Úganda, nokkrar borgir á Indlandi, Kína, Írland, Ítalía, Belgía, Sviss, Þýskaland og Holland.

Bekkurinn skoðar saman þessar ljósmyndir og spjalla um þetta svæði sem er mikilvægt að nemendur þekki.

Annar hluti.

Nemendum er skipt í 4 manna hópa sem að svara þessum spurningum saman:

  1. Hvaðan haldið þið að ruslið komi?
    Gott að láta nemendur hafa kort af hafsvæðinu eða vera búinn að varpa upp á tjald staðsetningunni og löndunum í kring en hafsvæðið er á milli vesturstrandar Bandaríkjanna og Japan.
  2. Hvaða aðgerðir manna hafa valdið mengun í höfunum? Endilega nefna dæmi sem að þið þekkið.
  3. Af hverju er þetta hættulegt fyrir dýr að ykkar mati?
  4. Haldið þið að það sé mikilvægt að hætta framleiðslu á svona mikið af hlutum sem enda sem rusl? Af hverju og af hverju ekki?

Þriðji hluti.

Kennari ræðir með nemendahópnum í heild:

Hver ber ábyrgðina að hreinsa þetta rusl í sjónum upp?

Hver ber ábyrgð á því að the Great Garbage Patch vaxi enn meira?

Er eitthvað sem við getum gert til þess að draga úr plasti í okkar hverfi eða landi?

Hvernig væri hægt að breyta umbúðum að hlutum sem við kaupum (taka 2-3 dæmi um það sem það sem þið þekkið)?

Hér eru hugmyndir fyrir umbúðaumræðu ef kennari vill hjálpa nemendum.

Nemendur kynnast hugtökunum endurnotkun, endurvinnsla og endurnýting (sjá lykilhugtök f. ofan) með því að kennari kynnir nemendum hugtökin.

Að lokum væri unnt að gera lista af hugmyndum nemenda til þess að draga úr notkun á plasti í okkar daglega lífi.

Verklegar æfingar/Vettvangsferð

Unnt er að fara í vettvangsferð í sjávarútvegsfyrirtæki (ef kennarar hafa kost á) til að átta sig á mikilvægi fiskafurða fyrir Íslendinga í nútíð og framtíð.

Álitamál, áskoranir og tækifæri

Mikilvægast er að fá nemendur til að hugsa um plastið í sjónum sem mun líklega hafa áhrif á lífríki hafsins til framtíðar. Tækifærið felst í því að nemendur ræði þetta efni við foreldra sína og jafnvel breyti neysluhegðun og umbúðanotkun sinni vegna þessa fróðleiks. Áskorunin efnisins felst í því að vekja áhuga nemenda á efninu þar sem þetta er ekki við Ísland heldur í Kyrrahafinu vegna hafstraumanna sem að eru þar. Vandamálið getur virkað fjarlægt nemendum. Því er mikilvægt fyrir kennara annars vegar að reyna að ná tengingu við nærsamfélagið á Íslandi þar sem hafið skiptir miklu máli og hins vegar að  reyna að láta nemendur átta sig á hnattrænu samhengi hlutanna, sérstaklega með sjálfbærni í huga.

Námsmat

Kennari metur virkni nemenda í hópavinnu annars vegar og þeim afrakstri sem verður til í henni hins vegar. Nemendur skrifa niður í vinnubók svörin við spurningum sem að kennari varpar upp með skjávarpa en hugmyndir að spurningum er að finna hér að ofan. Svörin við spurningunum í þessu verkefni eru hluti af vinnubókareinkunn sem fer í námseinkunn nemandans.

Heimildir

Learning to Give. What about all that Plastic? Sótt 13. ágúst 2015 af http://learningtogive.org/lessons/unit366/lesson2.html#lesson

Íslensk orðabók. 2007. Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Ritstjóri: Mörður Árnason. Edda, Reykjavík. (Einnig á Snara – vefbókasafn.)

 

 

Til kennara: Allar ábendingar eru vel þegnar og ef þú betrumbætir þetta námsefni þætti okkur gott að fá nýja útgáfu til birtingar

esteryj@hi.is  eða svavap@hi.is