Vísindavaka

Markhópur: 5.-10. bekkur grunnskóla.

Lykilorð: Vísindi, vísindaleg aðferð, SI einingakerfi.

Lengd: 4-5 kennslustundir.

Höfundur: Gyða Björk Björnsdóttir

Verklegt/vettvangsferð: Já.

Samantekt

Markmið þessa verkefnis er að vekja áhuga og auka námsgleði með vísindavöku. Nemendur eru virkir þátttakendur, taka ákvarðanir og bera ábyrgð á eigin verkefni. Verkefnið býður upp á skapandi og lýðræðislegt starf sem er samþætt með áherslu á vinnubrögð og færni í vísindalegri aðferð. Vinnuferlið felur í sér samvinnu, upplýsingaöflun, skipulagningu, framkvæmd, úrvinnslu og framsetningu gagna og kynningu. Ætlast er til að nemendur tengi eigin athuganir og viðfangsefni við daglegt líf og hafi í huga t.d. tækniþróun, nýsköpun, kostnað og umhverfisáhrif.

Vísindavakning hefur verið hérlendis síðustu ár (þegar þetta er skrifað árið 2016), samanber vísindavefinn, háskólalestina og sprengjugengið, vísindasmiðjuna, bækur og sjónvarpsþætti. Þetta hefur skilað sér inn í skólana með auknum áhuga á vísindum og jákvæðari viðhorfum nemenda. Nauðsynlegt er að efla og viðhalda forvitninni með því að kanna, hanna og framkvæma. Í vísindavökunni er nemandinn í aðalhlutverki þar sem flestir grunnþættir menntunar koma við sögu.

Samkvæmt aðalnámskrá grunnskóla er mikilvægt að stuðla að jákvæðum viðhorfum og auka áhuga nemenda. Námið á að einkennast af lýðræðislegum vinnubrögðum þar sem nemendur fá tækifæri til að kanna, hanna og framkvæma um leið og þeir efla sinn þekkingargrunn. Lögð er áhersla á að verkleg færni, frumkvæði og ábyrgð aukist með virkri þátttöku nemenda.

Verkefninu fylgir tillaga að námsmati.

Verkefnið í fullri lengd: Vefsíða Word PDF Fylgiskjöl: Word PDF