Stígvélaganga – Verkefnið í fullri lengd

Höfundur: Þorbjörg Ólafsdóttir
Ritstjóri: Ester Ýr Jónsdóttir

Til baka

Markhópur: Elstu börn í leikskóla og 1. bekkur grunnskóla

Lykilorð: Gönguferð, nærumhverfi, athugun og skráning, stafrófið, vatn, rigning og pollar, jarðvegur og mold, drulla og leðja.

Lengd: 2-3 kennslustundir

Verklegt/vettvangsferð: Já

 

Efnisyfirlit

Inngangur
Hæfniviðmið og tengsl við námskrá
Lykilhugtök
Efni

Lesefni
Tenglar og myndbönd
Vinna nemenda
Álitamál, áskoranir og tækifæri

Námsmat

 

Inngangur

Stígvél eru eins og ofurkraftar fyrir fætur. Þau gefa þér tækifæri til að hoppa í pollum, vaða í gegnum leðju og í köldu vatni án þess að blotna á tánum.

Með þessu verkefni er verið að kanna skólalóðina og nánasta umhverfi skólans, markmiðið er að fá nemendur til að vera meðvitaða um það sem á vegi þeirra verður og til að skrá og ræða það sem þeir upplifa. Á skólalóðinni er margt að sjá og skoða og mikilvægt að vera vakandi fyrir þeim fjölbreyttu möguleikum sem umhverfið bíður upp á. Mikilvægt er að venja nemendur á að skrá niður athuganir sínar og íhuga það sem börnin skynja. Nemendur vinna með alla stafi stafrófsins í stafrófsröð, þannig fer fram óbeint nám við að læra stafrófið.

Gríptu vinnublöðin, skelltu þér í stígvélin og skundaðu af stað í stígvélum í frábæra ævintýraferð. Samspil vatns og jarðvegs getur verið stórkostlegt tækifæri til rannsókna og leikja.

Hæfniviðmið og tengsl við námskrá

Markmið þessa stutta verkefnis tengjast eftirtöldum hæfniviðmiðum, við lok 4. bekkjar, úr aðalnámskrá grunnskóla (2013), kafla 22, Náttúrugreinar:

Vinnubrögð og færni:

  • sagt frá og framkvæmt með hversdagslegum hlutum einfaldar athuganir úti og inni,
  • skráð atburði og athuganir, s.s. með ljósmyndum, teikningum, eigin orðum og sagt frá þeim,

Ábyrgð á umhverfinu:

  • tekið eftir og rætt atriði í umhverfinu sínu, sýnt félögum og náttúru alúð,

Náttúra Íslands:

  • sagt frá eigin upplifun á náttúrunni og skoðun á lífveru í náttúrulegu umhverfi,

Lykilhugtök

Þessi hugtök getur verið fróðlegt að ræða með nemendum fyrir gönguna.

Drulla: Mold, sandur og ýmis efni úr jarðvegi blandað saman við vatn. Samheiti: leðja.

Jarðvegur: Efsta lag Jarðar, í honum vaxa plöntur og þar lifa ýmis smádýr. Samheiti: mold.

Drulla: Mold, sandur og ýmis efni úr jarðvegi blandað saman við vatn. Samheiti: drulla.

Mold: Efsta lag Jarðar, í henni vaxa plöntur og þar vaxa ýmis smádýr. Samheiti: jarðvegur.

Pollur: Vatn sem hefur safnast saman í dæld, náttúrulega eða manngerða, t.d. eftir rigningu.

Rigning: Þegar vatn fellur til jarðar úr skýjum.

Vatn: Glært og blautt efni. Rigning, pollar, ár og vötn. Kranavatn.

Efni

Lesefni

Rigningardagur og pollar getur verið kveikja að verkefninu. Umræður um klæðnað og hvað stígvélin gefa okkur færi á að gera, sem við myndum jafnvel sleppa án þeirra.

Einnig er hægt að hefja verkefnið á almennri umræðu um skólalóðina og nánasta umhverfi hennar og það sem þar er að finna.

Lesefni sem meðal annars er hægt að nýta í þessa umræðu: Komdu og skoðaðu umhverfið og Skólabókin mín.
Komdu og skoðaðu umhverfið

Tenglar og myndbönd

 

Komdu og skoðaðu, vefefni með öllum bókunum.

Ýmsir vefir hjá Menntamálastofnun sem tengjast náttúrufræði á yngsta stigi. Hér er bæði að finna vefi sem og rafrænar bækur sem má nýta með nemendum hvort sem er fyrir eða eftir göngu.

Hugmyndin að verkefninu Stígvélaganga (e. Welly Wander) kemur af síðunni WOODLAND Trust – Nature detectives en þar er að finna ýmis verkefni sem gaman er að vinna með börnum.

Vinna nemenda

Stærsti hluti verkefnisins er vettvangsferð/gönguferð þar sem nemendur fara um nánasta umhverfi skólans og í framhaldi af því er rætt um það sem nemendur skynjuðu með augum, eyrum og nefi. Þannig læra nemendur að taka eftir umhverfi sínu, kynnast athugunum og skráningu.

1. kennslustund – Undirbúningur fyrir gönguferð. Nemendur fá upplýsingar um verkefnið, áætlaða gönguferð í bleytu (betra að hafa polla) og að allir þurfi að vera í stígvélum eða öðrum vatnsheldum skófatnaði til að geta tekið fullan þátt í ferðinni. Mikilvægt er að nefna við nemendur að markmiðið sé að horfa á og meðtaka það sem er í umhverfinu og að að gönguferð lokinni verði unnið með það sem þau skynjuðu, upplifunin skráð niður með fjölbreyttum hætti. Verkefninu fylgja þrjú fylgiskjöl sem gott er að fara yfir með nemendum áður en farið er í gönguna. Skjölin eiga öll uppruna sinn á vef WOODLAND Trust: Nature detectives.

  • Fylgiskjal 1: Vinnublað sem tengir nemendur við ferðina, þ.e. hvað þeir gera í ferðinni.
  • Fylgiskjal 2: skráningarblað fyrir myndræna framsetningu (e. storyboard) af upplifun nemenda af ferðinni.
  • Fylgiskjal 3: skráningarblað fyrir nemendur þar sem þeir skrá niður það sem þeir sjá, heyra eða finna lykt af í ferðinni, markmiðið er að finna orð sem byrja á öllum stöfum stafrófsins (A-Ö). Ef verkefnið er unnið í leikskóla eða upphafi fyrsta bekkjar er mjög líklegt að kennari þurfi að aðstoða nemendur við að skrá inn í töfluna. Þá geta nemendur komið með lausnir munnlega og kennari skráir þær þannig að nemendur sjái hvernig orðin eru skrifuð.

Fyrir gönguferðina er gott að fara yfir öryggisatriði eins og umferðarreglur o.þ.h. sé farið út af skólalóðinni og eftir því sem við á.stigvel-i-drullu

2. kennslustund – Gönguferð. Nemendur fara í stígvélum í gönguferð um skólalóðina og/eða nánasta nágrenni skólans með kennara sínum. Gott er að hafa í huga að betra er að fara leið sem er fjölbreytt og felur í sér t.d. að ganga yfir gras, möl, sand, malbik og mold. Markmiðið er að fara um sem fjölbreyttast svæði, þannig að nemendur nái að busla, vaða, hoppa og skvetta (sjá fylgiskjal 1). Þannig er hægt að ná sem fjölbreyttastri upplifun og umræðu að gönguferð lokinni. Hér gæti verið snjallt fyrir kennara að hafa meðferðis myndavél, snjallsíma eða spjaldtölvu til að taka myndir í ferðinni.

3. kennslustund – Úrvinnsla gönguferðar. Eftir að gönguferðinni er lokið vinna nemendur verkefnablað 2, þar sem þeir teikna upp gönguferðina og sína upplifun af henni. Síðan er verkefnablað 3 unnið, sjálfstætt eða með aðstoð kennara. Hér er bein samþætting við íslensku. Kennari og nemendur ræða síðan upplifun nemenda af gönguferðinni og hjálpast að við að fylla inn í verkefnablaðið það sem upp á vantar.

Álitamál, áskoranir og tækifæri

Þau tækifæri sem felast í þessu einfalda verkefni er að kynna fyrir nemendum mikilvægi þess að ræða það sem er í umhverfinu og að við getum notað fleiri skilningarvit en augun til að meðtaka það sem er í kringum okkur, s.s. eyrun og nefið. Einnig er þetta æfing í því að skrá niður athuganir sínar.

Námsmat

Kennari hefur vinnublöðin til að styðjast við í námsmati sínu sem er óformlegt. Um kennsluhætti og námsmat í náttúrugreinum segir á bls. 176-177 í aðalnámskrá grunnskóla (2013):

Nemendur þurfa að öðlast hæfni til að fylgjast með, afla gagna, mæla og meta það sem fengist er við en jafnframt að tjá sig um reynslu sína, vinnuaðferðir og niðurstöður. Niðurstöður má setja fram og miðla á ýmsan hátt, hvort sem er munnlega, með aðferðum leikrænnar tjáningar, skriflega, með tölum og orðum, með aðstoð rafrænna miðla eða myndrænt.

[…]

Nemendur fá þjálfun í vinnubrögðum, í námi í náttúrugreinum, við leit að skýringum og lausnum, við framkvæmd athugana og við mat á niðurstöðum. Mikilvægt er að nemendur framkvæmi einfaldar athuganir og fái með því tækifæri til að upplifa og draga ályktanir af reynslu sinni. Þessar athuganir geta meðal annars farið fram í skólastofunni, nánasta umhverfi skólans og á söfnum.

Kennari metur hvernig nemendum gengur að tileinka sér þau vinnubrögð og færni sem stefnt er að með verkefninu. Þ.e. að geta sagt frá og framkvæmt með hversdagslegum hlutum einfaldar athuganir úti og skráð atburði og athuganir, s.s. með ljósmyndum, teikningum, eigin orðum og sagt frá þeim.

Að nemendur sýni að þeir taki eftir og geti rætt það sem fram fór í gönguferðinni.

 

 

Til kennara: Allar ábendingar eru vel þegnar og ef þú betrumbætir þetta námsefni þætti okkur gott að fá nýja útgáfu til birtingar

esteryj@hi.is eða svavap@hi.is