Deilt um orkuna – Verkefnið í fullri lengd

Höfundur: Brynja Stefánsdóttir.

Ritstjóri: Ester Ýr Jónsdóttir.

Til baka

Markhópur: 7.-8. bekkur.

Lykilorð: Endurnýjanleg orka, raforka, vatnsafl, jarðvarmi, vindorka, hálendi.

Lengd: 5 kennslustundir.

Verklegt/vettvangsferð: Nei.

Efnisyfirlit

Markmið
Hæfniviðmið og tengsl við námskrá
Lykilhugtök
Efni

Lesefni og kveikjur
Tenglar og myndbönd
Vinna nemenda
Verklegar æfingar/Vettvangsferð
Álitamál, áskoranir og tækifæri

Námsmat

Markmið

Rafmagn er eitthvað sem við í nútímasamfélagi getum ekki verið án. Mikilvægt er að nemendur átti sig á hvar það rafmagn sem þeir notast við er framleitt og hvað þarf til. Umræðan í samfélaginu seinustu ár hefur snúið að því hvort virkjanir séu álitlegar og hversu margar þurfi í raun og veru til að halda uppi svo fámennri þjóð. Náttúruauðlindir okkar eru margar en mikilvægi þeirra felst ekki einungis í nýtingu þeirra. Ferðamenn hafa lagt land undir fót til að sjá margslungna náttúru okkar og berum við ábyrgð á því að viðhalda henni og vernda hana. Þetta verkefni veitir nemendum tækifæri til að setja sig í spor hagsmunaaðila er koma að virkjanamálum. Þeir þurfa að setja sig inn í heim náttúruverndarsinna auk þeirra sem búa í nálægð við virkjanir. Gagnrýnin hugsun og rökræddar málsvarnir gera þeim kleift að taka ábyrgð á orðum sínum. Verkefnið hefur það að markmiði að gera nemendur meðvitaða um land og þjóð og áhrif virkjana á land og þjóð.

Hæfniviðmið og tengsl við námskrá

Aðalnámskrá grunnskóla (2013) setur upp eftirfarandi hæfniviðmið náttúrugreina sem tengjast verkefninu. Að nemendur geti:

  • greint stöðu mála í eigin umhverfi og aðdraganda þess. Í framhaldi skipulagt þátttöku í aðgerðum sem fela í sér úrbætur,
  • tekið rökstudda afstöðu til málefna og komið með tillögu um hvernig megi bregðast við breytingum en um leið tekið af því að í framtíðinni er margt óvisst og flókið.
  • gert grein fyrir hvernig niðurstöður rannsókna hafa haft áhrif á tækni og atvinnulíf í nánasta umhverfi og samfélagi og hvernig þær hafa ekki haft áhrif.
  • beitt algengustu hugtökum og heitum í náttúrugreinum unglingastigsins.
  • aflað sér upplýsinga um náttúruvísindi úr heimildum á íslensku og erlendum málum
  • gefið skýringar á og rökrætt valið efni úr athugunum og heimildum,
  • dregið ályktanir af gögnum og gefið ólíkar skýringar með því að nota ólík sjónarhorn.
  • lýst ólíkum leiðum við framleiðslu, dreifingu og nýtingu orku á Íslandi.

Lykilhugtök

Endurnýjanleg orka: Orka sem unnin er úr orkulind sem nær að endurnýja sig á svipuðum hraða og tekið er úr henni. Orkan kemur ekki frá jarðefnaeldsneyti. Endurnýjanleg orka kemur frá sól, vindi, jarðhita, haforku, lofthita, varma úr yfirborðsvatni og vatnsorku, lífmassa, hauggasi, skolphreinsistöðvum og lífgasi (Wikipedia, e.d.).

Raforka: Nýting á auðlyndum fyrir raforku hófst fyrir um 100 árum á Íslandi. Raforka er notuð til þess að knýja tæki, eins og við uppvask, þvotta og þurrkun, matargerð, geymslu á matvælum og önnur raftæki. Einnig er hún notuð til lýsingar og upphitunar í húsum (Orkustofnun, e.d.). Ljóst er að við notum raforku gífurlega mikið í okkar daglega lífi og sökum þess, ásamt aukningu á notkun raforku í iðnaði, sé komið að þolmörkum Landsvirkjunar, en hún sér okkur fyrir raforku. Með því er átt við að framleiðsla Landsvirkjunar nái rétt að sjá heimilum og fyrirtækjum sem nú eru á Íslandi fyrir raforku, ef aukning verður í híbýlum eða iðnaði sé framboð ekki nægjanlegt. Þetta kemur fram í frétt í Viðskiptablaðinu þann 12. febrúar 2015.

Vatnsorka: Vatn býr yfir stöðuorku sem kemur fram í falli þess, orkan er virkjuð til að framleiða rafmagn. Vatnið er látið falla niður að rafölum (túrbínum) sem snúast undan þunga vatnsins. Því meiri hæð sem vatnið fellur úr, þeim meiri orka (Wikipedia, e.d.).

Jarðvarmi: Talað er um jarðvarma eða jarðhita þegar heitt vatn eða gufa kemur upp úr Jörðinni á háhitasvæðum. Jarðvarmi hefur að mestu verið nýttur til upphitunar í húsum og sundlaugum (Wikipedia, e.d.).

Vindorka: Er orka í formi hreyfiorku sem vindur felur í sér. Á sér uppruna frá geislum sólar og hefur maðurinn nýtt sér þetta form orku með seglum báta í um 5.500 ár. Er ótæmandi orkulind og almennt umhverfisvæn (Wikipedia, e.d.).

Hálendi: Sá hluti Íslands sem liggur inn af byggðum landsins og er almennt ekki nýttur til búsetu. Er margbreytilegt í náttúrugerð. Þar má finna griðastaði lífvera, beitilönd og veiðivötn ásamt ýmsum svæðum sem flokkuð eru sem ákjósanlegir kostir virkjunar (Hilda S. Pennington og Þórdís Jóhannesdóttir, e.d.).

Efni

Lesefni og kveikjur

Eftirfarandi myndbrot er úr fréttum Ríkisútvarpsins um fyrirætlanir Landsvirkjunar að stækka jarðvarmavirkjun í Bjarnarflagi í Mývatnssveit eða á Þeistareykjasvæðinu. Þar koma fram sjónarmið tveggja aðila. Góð kveikja fyrir komandi verkefni nemenda.

Vefur Landsvirkjunar hefur stuttar útskýringar á endurnýjanlegum orkugjöfum ásamt myndbrotum.

Tenglar og myndbönd

Myndbrot með útskýringum á hvernig vatnsaflsvirkjanir virka.

Myndbrot með útskýringum á hvernig jarðvarmavirkjanir virka.

Vinna nemenda

Kennslustund 1
Nemendur ræða ásamt kennara um lykilhugtök og tengja þau við málefni daglegs lífs. Atvinnugreinar eru tengdar inn eftir áhuga og fyrirtækið Landsvirkjun er rætt og mikilvægi þess. Gömlum dagblöðum er flett og greinar sem tengjast orkumálum klipptar út og þeim raðað á stór veggspjöld sem sett eru upp í stofunni.

Í lok tíma kjósa nemendur um hvaða grein eða málefni um orku hafi verið mest áberandi í dagblöðunum.

Kennslustund 2-3
Hópavinna nemenda Dagur í lífi hvers? er kynnt.

Nemendum er skipt niður í sex hópa. Hver hópur dregur upplýsingar um persónu sem þeir þurfa að túlka á málþingi bekkjar í lok verkefnavinnu. Málþingið ber yfirskrift fréttar sem var efst í kosningum kennslustundar á undan. Nemendur geta leitað eftir hugmyndum um hvernig best sé að leysa verkefnið í dagblaðagreinarnar sem taka á völdu efni. Þeir þurfa að vinna forvinnu um þær skoðanir og málefni sem þurfa að koma fram, mikilvægt er að nemendur séu með heimildir sér til stuðnings á málþingi. Notast er við Internetið, tímarit, blaðagreinar og bækur. Nemendur fylla út verkefnablað sem þau svo skila inn til kennara í lok verkefnis, fylgiskjal 1.

Mikilvægt er að kennari hafi farið yfir þær greinar sem klipptar voru út og bætt inn til viðbótar ef við á þannig að allir hópar hafi eitthvað til að leita í fyrir sína persónu.

Forsaga: Í firði nokkrum á Íslandi er bæjarfélag. Þar búa um 2.000 manns en atvinnuleysi hefur aukist nokkuð seinustu ár þar sem fyrirtæki hafa verið að hætta starfsemi. Bæjaryfirvöld hafa áhyggjur af þróun mála, sérstaklega þar sem íbúum hefur fækkað sökum atvinnuleysis. Það var mikið um ferðamenn í bænum á sumrin þegar náttúran var óröskuð. Fyrir um 3 árum var byggð verksmiðja fyrir álframleiðslu, eftir það fækkaði ferðamönnum. Álverið nýtir stóran hluta raforkunnar sem er framleidd og nú hefur forstjóri orkufyrirtækis sett sig í samband við bæjarráð. Hann vill staðsetja vatnsaflsvirkjun á svæðinu og virkja þannig lón sem staðsett er í návígi við bæjarfélagið.

Persónuupplýsingar þeirra sem koma að málþinginu:

Forstjóri orkufyrirtækis – vill virkja lón rétt við bæjarfélagið. Telur það vera hagstæðast fyrir álverið. Með aukinni eftirspurn á orku verði rafmagn ódýrara ef virkjun er nálægt og möguleikar til að stækka álverið og fjölga starfsfólki verði stórauknir.

Náttúruverndarsinni – vill ekki sjá náttúruna nýtta undir virkjun. Vernda þurfi náttúruperlur landsins og lífríki lífvera.

Fulltrúi bæjarráðs – vill halda í unga fólkið og vill efla bæjarfélagið. Hefur miklar áhyggjur af fólksflutningum frá bæjarfélaginu.

Fulltrúi atvinnumála – er ánægður með möguleika á aukinni atvinnu fyrir íbúa bæjarfélagsins.

Jóhann, nýútskrifaður úr Umhverfis- og auðlindafræði frá Háskóla Íslands – hefur áhyggjur af þróun mála í bæjarfélaginu. Hefur hugmyndir um hvernig megi nýta endurnýjanlega orkugjafa í stað þess að virkja lónið.

Kennslustund 4
Nemendur fara í hópum til kennara með punkta sína og fá aðstoð um hvernig væri best að koma þeim yfir á mál sem flytja má á málþinginu.

Þessi tími felur í sér æfingar á flutningi og fínpússun á verkefnablaði.

Kennslustund 5
Málþing. Nemendur fá dagskrá en áætlaður tími til flutnings er allt að 5 mínútum á hvern hóp.

Dagskrá málþings
Dagskrá málþings er sett upp af kennara þar sem kynning á hverjum flutningi kemur fram. Nemendur koma lykilsetningum áleiðis til kennara fyrir tímann, lykilsetningar þurfa að vera lýsandi fyrir málflutninginn og aðalatriði komi skýrt fram. Til að nemendur upplifi heildrænan leik eru nemendur beðnir um að lifa sig inn í hlutverk sitt. Hver hópur velur fulltrúa til að túlka persónu sína og flytja erindi. Áætlaður tími málflutningar hvers hóps er 5 mínútur. Kynna þarf fyrir nemendum pallborðsumræðurnar í setningu málþings og allir eru beðnir um taka sér hlutverk bæjarbúa sem sitja málþingið. Þeim ber sú skylda að hlusta af athygli og undirbúa spurningar sem beina þarf að fyrirlesurum í lokin.

Verklegar æfingar/Vettvangsferð

Engin verkleg æfing eða vettvangsferð er fólgin í verkefninu.

Álitamál, áskoranir og tækifæri

Hugtakið endurnýjanlegir orkugjafar gefur tilefni til umræðna um vatnsnotkun og sóun á vatni. Íslendingar búa við þau gæði að eiga nóg vatn til brúks. Aftur á móti eru önnur lönd í heiminum sem hafa ekki slík gæði og umræður geta skapast um sóun okkar á auðlindum. Nýta má þennan umræðupunkt til að fjalla um aðrar orkulindir sem hugsanlega gæfu okkur það rafmagn sem við þyrftum. Í þessu samhengi er hægt að heimsækja heimasíðu Landsvirkjunar og fjalla um hvað er verið að gera á landinu til að framleiða rafmagn.

Út frá þessari umræðu er hægt að fjalla um hugtakið sjálfbærni og hvað við gætum gert til að minnka vistspor okkar. Hvernig rafmagnsnotkun okkar hefur áhrif á það og hvað við nýtum rafmagnið okkar í. Með þessu er hægt að gefa nýja sýn á orðið sóun.

Verkefnið býður upp á aukna tengingu við fyrirtæki í návígi við skóla. Líklegt þykir að betur gangi fyrir nemendur í smærri byggðarkjörnum að ná samtali við fyrirtæki eða bæjarstjórn heldur en í þeim stærri. Möguleiki er að fara með nemendur í heimsókn til fyrirtækja þar sem raforkunotkun er mikil og ræða við borgar-/bæjarstjórn um slík málefni. Slíkt tengir nemendur við nærumhverfi sitt og aðstoðar þá við að tengja eigin rökfærslur við upplýsingar sem gefnar eru frá þriðja aðila. Vinna má málþing út frá viðtölum við einstaklinga sem gegna svipuðum hlutverkum og gefin eru í sögunni að ofan.

Námsmat

Kennari metur flutning nemenda á málþingi. Horft er til inntaks, rökfærslu og hvernig nemendum tekst til við að setja sig í spor persóna og flytja mál þeirra. Til þess notast hann við viðmiðunarramma sem settur er upp í fylgiskjali 2. Ásamt því er verkefnablað nemenda (fylgiskjal 1) skoðað m.t.t. forvinnu þeirra og heimildaöflunar.

 

 

Til kennara: Allar ábendingar eru vel þegnar og ef þú betrumbætir þetta námsefni þætti okkur gott að fá nýja útgáfu til birtingar.

esteryj@hi.is eða svavap@hi.is