Auðlindir í rusli – bætt nýting fyrir betri heim – Verkefnið í fullri lengd

Creative Commons License

 

Höfundur: Þórunn Arnardóttir
Ritstjóri: Birgir U. Ásgeirsson

Til baka

Markhópur: Nemendur í 6. – 8. bekk.

Lykilorð: Sorp, rusl, auðlind, endurnotkun, endurvinnsla, endurnotkun, úrgangur, úrgangsþríhyrningur, lífsferill

Lengd: 8-12 kennslustundir

Verklegt/vettvangsferð: Nei.

Efnisyfirlit

Markmið
Hæfniviðmið og tengsl við námskrá
Lykilhugtök
Efni

Lesefni og kveikjur
Tenglar og myndbönd
Vinna nemenda
Álitamál, áskoranir og tækifæri

Námsmat
Heimildir

Markmið

Í þessu verkefni verður sjónum beint að úrgangi og úrgangsstjórnun. Gerð verður tilraun til að horfa á úrgang sem auðlind með það að markmiði að auka virðingu fyrir þeim verðmætum sem felast í úrgangi. Nemendur kynnast úrgangsþríhyrningnum sem hjálpartæki við ábyrga umgengni um auðlindir ásamt því að beita lífsferilshugsun. Þeir kynna sér einnig aðstæður á bómullarakri og ferli bómullar frá akri í flík með það að markmiði að vekja þá til vitundar um auðlindanotkun og úrgang í framleiðsluferli, ólík kjör fólks og misgreiðan aðgang þess að auðlindum jarðar.

Til að heimfæra hugtök úrgangsþríhyrningsins upp á raunverulegar aðstæður er stuðst við hugmynd úr óútgefnu námsefni Nordisk minesteraad. Bómull er ódýr og auðvelt að nálgast hana. Það er raunhæft að nemendur hafi e-ð að segja um það hvort bómullarflík er keypt og hvernig hún er nýtt og geti þannig nýtt sér þekkingu sína á úrgangsforvörnum í eigin lífi.

Neytendur líta gjarnan svo á að hlutir sem ekki gagnast þeim lengur séu ónýtir, eðslegir og efnin í hlutunum að eilífu verðlaus. Hlutir og efni sem ekki eru lengur í notkun safnast saman í ruslahuga sem flestir vilja hafa sem lengst frá heimili sínu. Í hugum flestra eru ruslahaugar ekki aðlaðandi og hættulegir heilsu manna. Rétt er að frá opnum urðunarstöðum úrgangs (ruslahaugum) berst vond lykt og þar geta sóttkveikjur náð sér vel á strik, en lyktin frá hænsnabúi er heldur ekki góð og sjúkrahús eru ekki síður en ruslahaugar staður þar sem sóttkveikjur geta náð sér á strik. Tilfinning fyrir ógeði gæti vaknað hjá sumum þegar orðið ruslahaugur er nefnt heldur en orðin hænsnabú og sjúkrahús. Í dag hafa þó kröfur til urðunarstaða aukist gríðarlega síðustu ár (sjá kafla 3.3.3 í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024) og er ekki lengur um að ræða opna ruslahauga. Urðun úrgangs er ekki alslæm, þetta er hentug förgunarleið á Íslandi þar sem landrými er nægilegt og ekki þörf á þeirri orku sem myndast við brennslu úrgangs. Brennsla með orkuvinnslu er hins vegar algeng förgunarleið erlendis. Sjá nánar kafla 3.3.3 og 3.3.4 í Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Á næstu árum verður bann á urðun lífræns úrgangs að veruleika og þörf á breyttri meðhöndlun.

Það er ekki einfalt verkefni að breyta sjónarhorni okkar á úrgang frá því að hann sé ónýtanlegur og óæskilegur yfir í að horfa á hann sem auðlind. Verkefnið er þó knýjandi. Úrgangur er vaxandi vandamál í heiminum í dag sem fylgir aukinni fólksfjölgun (sjá t.d. hér http://www.worldometers.info/world-population/). Verðmæti sem unnin hafa verið með ærnum tilkostnaði; losun gróðurhúsalofttegunda, ágangi á orkuauðlindir og grunnvatnsforða jarðarinnar, daga uppi í ógnarstórum haugum, engum til gagns en hringrásarkerfum jarðarinnar til tjóns. Þetta tengist lífsferilsgreiningu /lífsferilshugsun, það að greina umhverfisáhrif vöru frá upphafi til enda. Auk þess viðhelst með þessum hætti misskipting auðs í heiminum, félagslegt óréttlæti og fjandskapur ólíkra menningarheima.

Efnin í hlutunum okkar hafa verið í hringrásarkerfum jarðarinnar í milljarða ára. Ný efni berast ekki til jarðarinnar í neinum þeim mæli sem máli skiptir. Það er því mikilvægt að minna sig á að efni úr auðlindum jarðar tapa ekki gildi sínu þó maðurinn nýti þau í hlutina sína í skamma stund, afar skamma stund í sögu jarðarinnar. Auðlind er jákvætt orð á meðan orðið rusl hefur yfir sér neikvæðan blæ. Með því að opna augu nemenda fyrir auðlindum sem felast í rusli, skapast grunnur fyrir nýju verðmætamati jörðinni og jarðarbúum í hag. Í verkefninu er farið yfir mikilvægi þess að draga úr ágangi á auðlindir jarðar og þar með úrgangi en einnig er gagnlegt að fara yfir þann ávinning sem hlýst af endurnotkun og endurvinnslu.

Miðað er við nemendur í 6.-8. bekk. Hefðbundnara væri að miða við miðstigið en að mínu mati er of stór hópur nemenda í 5. bekk ekki tilbúinn til að takast á við óhlutbundin hugtök og gæti ekki tekið þátt í samræðum um efnið.

Hæfniviðmið og tengsl við námskrá

Verkefninu er ætlað að koma til móts við kröfur Aðalnámskrár grunnskóla 2013 um sjálfbærni sem einn af lykilþáttum menntunnar. Það segir m.a: „Sjálfbær þróun getur ekki átt sér stað nema innan þeirra takmarka sem vistkerfi jarðar setja okkur. Því er skilningur á þeim takmörkum, ásamt ferlum, lögmálum og hringrásum í náttúrunni, mikilvægur grundvöllur þess að okkur takist að vinna eftir hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar.“

Lykilhæfnimarkmið sem sérstaklega er unnið með er: Skapandi hugsun og frumkvæði, hæfni til að draga ályktanir út frá eigin þekkingu, áræðni til að leita nýrra lausna, gagnrýnin hugsun og röksemdafærsla sbr.

Hæfniviðmið (náttúrufræði – samfélagsfræði)

 • Þekkja hugtök úrgangsþríhyrningsins; úrgangsforvarnir, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting og förgun, gera skýran greinarmun á þessum hugtökum og geta nefnt raunhæf dæmi.
 • Geta nefnt mörg dæmi um auðlindir og hráefni sem koma við sögu í bómullarræktun og vinnslu.
 • Þekkja svæði í heiminum þar sem bómull er ræktuð, viti hvað þarf til við bómullarræktun, þekki aðstæður þeirra sem rækta bómull og/eða vinna á bómullarakri
 • Þekkja ferli bómullar frá akri í flík í verslun og frá verslun til endurnýtingar.
 • Átti sig á hvaða úrgangur fellur til við bómullarrækt og bómullarvinnslu
 • Geri tillögur að nýtingu bómullar/vinni tilbúið verkefni sem miðar að því að minnka úrgangslosun í bómullariðnaði/ verslun með bómull /notkun afurða úr bómull.
 • Skipulagt verkefni sitt, gert grein fyrir því og metið eigin frammistöðu og félaga.

Lykilhugtök

 • Auðlindir: Það sem menn geta nýtt sér „til arðbærrar framleiðslu eða starfsemi, þrátt fyrir að öflun þess kunni að kosta fé og fyrirhöfn…merking orðsins „auðlind“ er afstæð gagnvart stað og tíma; það sem er auðlind á einum stað og einum tíma þarf ekki endilega að vera það annars staðar eða á öðrum tíma.“ Sjá á Vísindavefnum.
 • Endurnotkun: Endurtekin notkun úrgangs í óbreyttri mynd. (Dæmi; húsgögn, fatnaður, bækur…). Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Endurvinnsla: Endurframleiðsla úr úrgangi til upprunalegra eða annarra nota en ekki orkuvinnsla. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Endurnýting: Hverskonar nýting önnur en endurnotkun, t.d. endurvinnsla, orkuvinnsla og landmótun. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Förgun: Úrgangur er brenndur eða grafinn í jörðu. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Hráefni: Óunnið efni í náttúrunni, efni notað í iðnaði, efni sem e-ð annað er unnið úr (Mörður Árnason 2007).
 • Lífsferilshugsun: Lífsferilshugsun felur í sér að við ákvarðanatöku er jafnan reynt að finna bestu leiðirnar út frá því hvernig lágmarka megi neikvæð áhrif viðkomandi ákvörðunar á umhverfi og samfélag að teknu tilliti til allra hluta lífsferils þess viðfangsefnis sem ákvörðunin snýst um. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Úrgangur: Það sem gengur af e-u, afgangur, leifar, slitur – rusl, sorp (Mörður Árnason 2007).
 • Úrgangsforvarnir: Aðgerðir sem miða að því að minnka úrgang t.d. með minni notkun umbúða og aukinni nýtingu hráefnis og vöru. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Úrgangsstjórnun: Meginmarkmið í úrgangsstjórnun er að draga úr auðlindanotkun með úrgangsforvörnum. Úrgangsþríhyrningurinn er tæki til að auka skilning og vitund fólks um ábyrga umgengni við auðlindir. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.
 • Úrgangsþríhyrningurinn: Er tæki til að segja fyrir um forgangsröðun í löggjöf og stefnumótun um varnir gegn myndun úrgangs og meðhöndlun hans. (Umhverfis- og auðlindaráðuneytið, 2013). Þríhyrningurinn er líka gagnlegt tæki fyrir einstaklinga við ákvarðanatöku bæði þegar vara er keypt og þegar notkun lýkur. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.

Efni

Lesefni og kveikjur

Árlega fellur til um 1600 kg af rusli á hvern íbúa á Íslandi. Það gera um 4 kg á hverjum degi. Tæplega 60 % úrgangsins er endurunnin. Það þýðir að daglega falla til 1,6 kg af úrgangi á hvern íbúa sem ekki er nýttur á neinn hátt! Um 40 % úrgangsins er frá heimilum. Sé það dæmi reiknað fellur daglega til um 1,6 kg af úrgangi á hvern heimilismann og af því er tæplega kíló ekki endurunnið, endurnýtt eða endurnotað. Úrgangur frá heimilum er því mun verr nýttur en úrgangur frá fyrirtækjum og stofnunum. Sjá Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024.

Þegar við hendum hlutum eru þeir að okkar mati úr sér gengnir eða gagnslausir. Við hendum hlut og hann verður að rusli. Því fer fjarri að það sé einungis á endapunkti sem hlutur skapar rusl. Þegar hluturinn var keyptur var hann í umbúðum sem fóru í rusl. Lífsferilshugsun snýst um að horfa á heildarmyndina. Ef við fylgjum ferli hlutarins frekar eftir kemur í ljós að margskonar auðlindir voru nýttar við framleiðsluna sem annaðhvort sköpuðu loftmengun eða enduðu sem rusl á mismunandi stöðum í heiminum. Til að framleiða einn stuttermabol úr bómull þarf þrjú kg af hráefni (bómull, skordýraeitur, ólífrænn áburður, olía, litunarefni…). Til að framleiða einar gallabuxur þarf sjö kg af hráefni. Í þessum tölum er ekki allt vatnið sem þarf til að hreinsa bómull á meðan á vinnslunni stendur.

Bómull hefur verið nýtt í Mið – Ameríku í tæplega 8000 ár. Saga bómullar í Indlandi og Kína er 5000 ára gömul. Efnið barst með Aröbum til Evrópu á 15. öld. Með vélvæðingunni á 18. öld jókst vinnsla úr bómull umtalsvert. Lengst af var bómull handtínd en upp úr 1950 tóku vélar við tínslunni. Enn eru margir staðir í heiminum þar sem bómull er handtínd. Margskonar efni eru notuð í fata- og textílframleiðslu í dag en hlutfall bómullar er um 50 %.

Bómull er framleidd í löndum þar sem er heitt og þurrt en meðalársúrkoma þarf þó að vera um 500 ml (Meðalársúrkoma í Reykjavík 1971-2000 var um 900 ml skv. Veðurstofu Íslands. Dýrasta bómullin er ræktuð í Egyptalandi, Súdan, Perú og í BNA. Algengust er meðaldýra bómullin sem er ræktuð í BNA, Brasilíu, Pakistan, Tyrklandi og suðlægum löndum fyrrum Sovétríkjanna. Ódýrasta bómullin er ræktuð í Pakistan, Kína og Indlandi.

Í bómullarræktun er mikil krafa um framleiðni. Á síðustu fjórum áratugum hefur framleiðni tvöfaldast án þess að ræktarland hafi stækkað. Það gefur auga leið að það hefur haft í för með sér aukna notkun á tilbúnum áburði, meiri notkun á illgresis- og skordýraeyði og stóraukna vélvæðingu. Í öllum tilfellum er gengið á auðlindir jarðar og efni flutt til með tilheyrandi loftmengun.

Rauði krossinn tekur við fatnaði og textíl til endurnotkunar, endurvinnslu og endurnýtingar. Það væri áhugavert fyrir nemendur að kynna sér starf Rauða Krossins á Íslandi. Þeir eru með fataflokkunarstöð í Reykjavík og svo sjálfboðaliða um allt land. Rauði krossinn tekur á móti öllum textíl sem kemur inn í gegnum endurvinnslustöðvar og grenndargáma SORPU.

Tenglar og myndbönd

Vinna nemenda

Verkefninu er skipt upp í þrjá megin þætti. Í fyrsta þætti er vandinn kynntur og hugtök úrgangsþríhyrningsins. Mikilvægt er að hafa röð hugtakanna ætíð þá sömu í allri umfjöllun og í samræmi við röðina í úrgangsþríhyrningnum; Lágmörkun úrgangs/úrgangsforvarnir, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting, förgun. Auðvelt er að rugla þessum hugtökum saman og rétt röð auðveldar nemendum að muna. Nemendur kynnast bómullarframleiðslu og æfa í framhaldi af því notkun hugtaka þríhyrningsins þegar þeir skoða eigin fatnað. (Af tillitsemi við blygðunarkennd nemenda er ekki fjallað um nærföt og sokka.) Í öðrum þætti er unnið með hugtökin „auðlind“, „hráefni“, „úrgangur“og þau notuð við greiningu á aðstæðum. Nemendur kynnast aðstæðum bænda á Indlandi og eru hvattir til að taka afstöðu og rökstyðja skoðanir sínar. Í þriðja og síðasta þættinum reynir á skapandi hugsun, frumkvæði og samvinnu þar sem nemendur koma með tillögur að betri nýtingu bómullar og minni úrgangslosun.

Kennsluþáttur 1 – Hugtök úrgangsstjórnunar og ferli bómullar í flík.

 1. Glærusýning 1a, sjá fylgiskjal: Úrgangsþríhyrningurinn kynntur og hugtökin úrgangsforvarnir, endurnotkun, endurvinnsla, endurnýting, og förgun.
 2. Glærusýning 1b, sjá fylgiskjal: tvö myndbönd. Hvernig bómull er unnin og hvernig gallabuxur verða til.
 3. Verkefni: Föt nemenda borin saman við úrgangsþríhyrninginn.

i.            Nemendur kanna fötin sem þeir eru í / kanna fötin í fataskápnum heima: Hvað efni eru í fötunum? Hvað eru fötin gömul? Hafa aðrir átt fötin? Hvaðan gætu efnin í fötunum komið?  Gætu aðrir notað fötin þegar þau verða of lítil? Hverjir gætu notað flíkina? Hversvegna hættum við að nota e-a flík?

ii.            Hvað þarf að eiga margar buxur, boli, peysur?

iii.            Finnið bómullarflík sem telst ónýt. Hvað er að flíkinni? (blettótt, aflöguð, götótt, litur hefur dofnað, hnökrar, ekki í tísku, ekki flott, ekki þægileg, saumspretta….) Er hægt að bæta flíkina svo þú getir notað hana? Er hægt að bæta flíkina til að annar geti notað hana? Flíkur bornar saman við úrgangsþríhyrninginn. Hvar í þríhyrningnum er flíkin? Á hvaða þrepi er hún verðmætust? Er hægt að auka verðmæti flíkurinnar? Fáið t.d. upplýsingar hjá Rauða krossinum um feril endurnotkunar, endurvinnslu og endurnýtingar.

Kennsluþáttur 2 – Úrgangur í framleiðsluferlum – misskipting gæða jarðarinnar.

 1. Glærusýning 2a, sjá fylgiskjal: Fræðsla um bómull og bómullarrækt.
 2. Glærusýning 2b, sjá fylgiskjal: Myndbönd sem sýna vinnslu bómullar annarsvegar vélvæddan landbúnað og hinsvegar hjá indverskum smábændum. Nemendur vinna í hópum eða pörum og ræða efni myndanna og skrá athugasemdir og deila með bekknum.
 3. Glærusýning 2c, sjá fylgiskjal + verkefni:

i.            Hvaða auðlindir komu við sögu og hvaða orka var notuð? Hugtök: Olía – málmar – gúmmí – skordýraeitur – vatn – litarefni – þvottaefni – klór – gróðurhúsalofttegundir. Hugtökin höfð sýnileg á meðan glærur eru sýndar. Nemendur beðnir um að segja /skrifa setningar sem innihalda ofangreind hugtök um leið og glærurnar eru sýndar. T.d. hægt að láta nemendur skrifa með tússi á plastspjöld og kennarinn les ólíkar tillögur af plastspjöldunum.

ii.            Ferli bómullarvinnslu: Jarðvegur undirbúinn – sáning – varnir gegn skordýrum – uppskera – frumvinnsla – hvíttun – litun – spuni – saumavinna – verslun – auglýsingar nemendur merkja inn á hvert þrep hvaða efni þarf  og hvaða orka fer í ferlið. Kannski gott að nota paravinnu og hvert par geri tvö þrep fest á vegg í skólastofu Hægt að láta hópa vinna með vélvædda ræktun og aðra með óvélvædda ræktun líkt og er í Indlandi.– Nemendur gætu líka fengið úthendi af glærunum og skrifað inn á það.

 1. Hópverkefni – að fræða aðra. Merkja inn á teikningu af bómullarbol allan úrgang sem verður til við framleiðsluna. Kannski nota „ónýtan“ bol (bolur er í sjálfu sér aldrei ónýtur því hægt er að endurvinna bómull auðveldlega) og tússa á hann eða festa miða með títuprjónum á bolinn eða títa bolinn á karton og setja upplýsingarnar í kringum bolinn. (Mætti setja spurningamerki við að auka úrgang þegar verið er að vinna verkefni um umhverfismál og þá sérstaklega úrgangsmál.) Verkefnið fest upp utan við skólastofuna og verður að vera unnið með þeim hætti að lesendur geti fræðst um úrgangsvandamál.
 2. Skoðanalínuverkefni; (Æfa fyrst einfaldar staðhæfingar s.s. skólinn ætti að byrja kl. 10 á morgnana, það ættu að vera íþróttatímar alla daga, það ætti að vera hægt að vera inni í öllum frímínútum …) Tillögur að staðhæfingum: „Það er meiri mengun frá bómullar-ræktun í BNA en í Indlandi“, „Indverskir bændur selja bómullina of ódýrt“, „Við ættum frekar að kaupa föt úr indverskri bómull en bandarískri eða egypskri“, „Bandarískir framleiðendur nýta bómullina betur en þeir indversku“.

(Skoðanalínuverkefni snýst að því að ákveðin staðhæfing er sett fram og nemendur staðsetja sig einhversstaðar á ímyndaðri línu milli pólanna tveggja. Unnt er að útfæra verkefnið þar sem þau færa sig sjálf milli tveggja staða í herbergi. Einnig er unnt að sitja við borð þar sem hver og einn nemandi notar hlut og staðsetur hann á línu á boðinu. Nemendur geta svo breytt staðsetningunni smám saman eftir því sem umræðan þróast og þau færa rök fyrir vali sínu. Í svona verkefni er einmitt mikilvægt að nemendur átti sig á því að það er eðlilegt að þróa skoðun sína eftir því sem nánari upplýsingar koma fram. Stöðugar framfarir í úrgangsmálum leiða til þess að hægt er að finna hentuga farvegi fyrir fleiri flokka úrgangs og/eða betri nýtingu endurvinnsluefna.)

Kennsluþáttur 3 – Það sem við getum gert til að minnka úrgang. Rifja upp úrgangsþríhyrninginn. Nemendur takast á við nýjar hugmyndir um nýtingu fata/bómullar.

 1. Hugstormun í litlum hópum: Tillögur að betri nýtingu bómullar. Hópar gera grein fyrir hugmyndum sínum og þeim síðan safnað saman.
 2.  Hugmyndir framkvæmdar: Hér eru nokkrar hugmyndir, sumar hafa verið prófaðar annarsstaðar. Fata(bóka)safnið er tillaga sem þýskir nemendur létu verða að veruleika. Fötum var safnað saman og nemendur gátu skoðað og fengið lánuð föt sem þeir skiluðu svo hreinum til baka og næsti gat haft fötin að láni

i.            Endurbæta boli og hafa svo tískusýningu

ii.            Gera eitthvað alveg nýtt úr „ónýtum“ bómullarfötum/dúkum/sængurverum

iii.            Fatamarkaður

iv.            Fata-bókasafn

v.            Fatasöfnun eins og flöskusöfnun. Ganga í hús og safna textíl –vigta – koma í grenndargám. Ef um mikið magn er að ræða er hægt að skila beint til Rauða krossins. Einnig hægt að fara á endurvinnslustöðvar því grenndargámar taka takmarkað magn.

Álitamál, áskoranir og tækifæri

Það er við ramman reip að draga að vekja nemendur til umhugsunar um fórnarkostnað jarðarinnar sem hún ber vegna vestrænnar velmegunar. Í landlausum borgum er ekki hægt að helga sér land líkt og forfeður okkar gerðu, en við eignumst hluti og sýnum þannig samfélaginu hvers við erum megnug. Hagkerfin virðast drifin áfram af þrá okkar eftir þeirri hamingju eða stöðutákni sem nýir hlutir veita. Það er ekki eins einfalt og það virðist að taka upp lifnaðarhætti nægjusemi. Innkaup okkar eru hluti af hjarðhegðun og hver vill standa utan við hópinn eða ferðast í öfuga átt við fjöldann? Við nálgun þessa verkefnis ber að hafa í huga að „aðgát skal höfð í nærveru sálar“. Það er auðvelt að dæma okkur sem hégómlega þátttakendur í innihaldslausu lífsgæðakapphlaupi. En þrá okkar ristir dýpra. Við erum að leita að viðurkenningu og samkennd. Í þriðja hluta kennsluverkefnisins gefst tækifæri til að nemendur fái að upplifa þessar mikilvægu tilfinningar í gegnum það að fást við nægjusemi. Það er mikilvægasti hluti verkefnisins. Ef við eigum að geta endurskoðað neyslu okkar, verðum við fyrst að sjá leiðir til að uppfylla þær þrár sem við nú uppfyllum með neyslu.

Myndböndin sem eru hlekkjuð við verkefnið eru ekki síður hluti af álitamálum. Dregin er upp afar dökk mynd af búskaparháttum smábænda í Indlandi. Hvergi er bent á að mengun frá búskap þeirra er lítil þegar tekið er tillit til þess hve lítið þeir nota af vélum. Lítið fer til spillis þegar bómull er handtínd og handflokkuð. Lítið land veitir mörgum atvinnu og mettar marga munna. Að sjálfsögðu er gagnrýnivert að framleiðendur skordýraeiturs markaðsetji þau í þriðja heiminum ef þau reynast óheppileg í vestrænum heimi. Sömuleiðis er verðugt að velta fyrir sér afleiðingum ólæsis. Það er ekki síður í þessum þætti sem forðast ber að dæma og alhæfa.

Í umfjöllun um endurvinnslu og endurnýtingu þarf að skoða mismunandi aðstæður landa. Ísland sendir t.d. endurvinnsluefni með skipum til Evrópu. Það er umhverfisvænna að senda efnin þessa leið en reka verksmiðju á Íslandi. Það er vegna þess að innflutningur er meiri en útflutningur og tóm skip sem sigla til útlanda flytja endurvinnsluefnin okkar. Það er því ekki verið að auka skipaferðir með því að flytja endurvinnsluefnin úr landi. Ef við værum með verksmiðju á Íslandi þyrftum við að  flytja inn endurvinnsluefni svo verksmiðjan myndi borga sig, þá værum við að auka skipaferðir. Umhverfismál geta því verið flókin og er lífsferilsgreining mikilvæg til þess að bera saman umhverfisáhrif.

Á glæru um endurnýtingu er rætt um að dýr efni séu notuð þegar önnur og ódýrari myndu gera sama gagn. Mikilvægt er að skoða mismunandi aðstæður ólíkra landa. Gler á Íslandi hefur verið mulið niður og notað í landmótun á urðunarstað SORPU í Álfsnesi. Það sparar þá flutning annarra fyllingarefna á staðinn. Þetta hefur talist betri kostur hingað til en lífsferilsgreining sem verkfræðistofan Efla vann nýlega sýndi hins vegar að flokkun, söfnun, flutningur og endurvinnsla glers borgar sig nú út frá umhverfissjónarmiðum (sjá: http://reykjavik.is/frettir/tilraun-hafin-i-sofnun-glers-grenndarstodvum). Næstu skref eru því að bæta við grenndargámum fyrir gler og koma því í endurvinnslufarveg frekar en endurnýtingarfarveg (einu skrefi ofar í úrgangsþríhyrningnum). Mikilvægt er að fylgjast með þróun og framförum í meðhöndlun endurvinnsluefna og leita stöðugt nýrra leiða við nýtingu þeirra.

Varðandi punkt á sömu glæru um metanvinnslu úr úrgangi þá þarf einnig að gera sér grein fyrir mismunandi aðstæðum á milli landa. Urðun úrgangs á Íslandi er hentugri förgunarleið en brennsla úrgangs. Við á Íslandi höfum næga ódýra orku og þurfum því ekki þá orku sem myndast við brennslu eins og nágrannaþjóðir okkar. Við höfum hins vegar nægt landsvæði til þess að urða úrgang. Hauggas, sem er blanda af metani og koltvíoxíði, myndast á öllum urðunarstöðum þar sem lífrænn úrgangur er urðaður. Lagakröfur gera ráð fyrir því að hauggasinu sé safnað og því brennt. Á urðunarstað SORPU í Álfsnesi er hauggasið hreinsað og notað sem ökutækjaeldsneyti. Er þetta umhverfisvæn leið til þess að nýta orkuna úr lífræna úrgangnum. Við spörum þá innflutning á eldsneyti og útblástur CO2 frá metanbílum er auk þess umtalsvert minni en á bensínbílum (útblástur frá einum bensínbíl er á við útblástur 113 metanbíla). Auk þess veldur metanvinnsla úr lífrænum úrgangi minni útblæstri  COen moltuvinnsla eingöngu. Betri leið er auðvitað að fá bæði metan og moltu úr lífrænum úrgangi og verður það niðurstaðan ef gas- og jarðgerðastöð SORPU tekur til starfa eins og stefnt er að. Besta leiðin er svo moltugerð í heimahúsi, þá er enginn flutningur og ekkert hauggas sem myndast því súrefni kemst að haugnum.

Verkefnið gefur möguleika á að skapa í skólastofunni vitund um auðlindir jarðar og gleðina af því að skapa og leita lausna á vanda. Bómullin í gömlum fötum er ekki síður en sú sem vex á akrinum, auðlind sem hægt er að nýta í margvíslegum tilgangi.

Námsmat

Námsefninu er fyrst og fremst ætlað að vekja til umhugsunar og hjálpa nemendum að móta viðhorf til úrgangsforvarna og bættrar nýtingar. Því er lagt til að nemendur skili hugarkortum eða greinagerðum um efnið þar sem krafa er gerð á að þeir noti þau hugtök sem kynnt hafa verið í námsefninu. Í lotu 3 gæti dagbók nýst sem matstæki.

a. Hugarkort. Gagnlegur vefur um hugarkortagerð.

i.            Gerið hugarkort þar sem hugtökin auðlind og hráefni og öll hugtök úrgangsþríhyrningsins koma fram ásamt skýringarmyndum og dæmum.

ii.            Gerið hugarkort eða sýnið lífsferil, þ.e. tímalínu um bómullarvinnslu frá akri til verslunar. Sýnið hvaða auðlindir eru notaðar við vinnsluna og hvaða áhrif þær hafa á umhverfið.

b. Greinargerð. Veltið fyrir ykkur eftirfarandi spurningum og skrifið 300 orða greinargerð;

i.            Hvað veistu núna um bómullarframleiðslu og vinnslu? Hvað kom þér á óvart?

ii.            Fannst þér þú sjá óréttlæti í einhverju af myndböndunum? – Útskýrðu skoðun þína.

iii.            Hefur þú mótað þér ný viðhorf til fatanna sem þú klæðist? – Útskýrðu skoðun þína.

iv.            Hvernig getum við haft áhrif á skynsamlega/réttláta nýtingu náttúruauðlinda?

v.            ……. – Margt annað kemur til greina sem viðfangsefni greinargerðar.-

c. Dagbók. Nemendur halda dagbók í 3. lotu verkefnisins. Í dagbókina eru skráðar allar hugmyndir að útfærslu á verkefninu (í orðum og skissum). Þegar búið er að skipta verkum skráir hver sitt hlutverk í dagbókina og athugasemd um það. Í hvert sinn sem unnið er að verkefninu er skráð hvað er gert, hvernig það gekk og hvað á að gera næst. Í lokin er samantekt á verkefninu, hvað gekk vel og hvað illa. Hvað skipti mestu máli og hvað lærðist.

Heimildir

Aðalnámskrá grunnskóla. (2013). Undirtitill: Almennur hluti 2011 Greinasvið 2013. Reykjavík: Mennta- og menningarmálaráðuneyti.

Cottonfabrics.info. (2014). The History of Cotton. Sótt 16.03.2014, á http://www.cottonfabrics.info/plant/cotton-plant.html

Hróbjartur Árnason (síðast uppfært 2014). Hugarkort Sótt 02.04.2014 á http://meistaranam.wikifoundry.com/page/Svona+gerir+%C3%BE%C3%BA+hugarkort

Mörður Árnason. (2007). Íslensk orðabók. undirtitill. Fjórða útgáfa byggð á 3. prentun frá 2005 með allnokkrum breytingum. Reykjavík: Edda

Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (2013). Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Úrgangsstjórnun til framtíðar. sótt 16.03.2014 á http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Landsaaetlun-2013-2024-(utgafa).pdf

Veðurstofa Íslands. Meðalúrkoma ársins 1971-2000. Sótt 17.03.2014, á http://www.vedur.is/vedur/vedurfar/kort/medalurkoma_a/

Þorsteinn Vilhjálmsson. (2013). Hvað er auðlind? Vísindavefurinn Sótt 12.03.2014, á https://visindavefur.hi.is/svar.php?id=60548

 

Mynd: Úrgangsþríhyrningurinn. Umhverfis- og auðlindaráðuneytið. (2013). Landsáætlun um meðhöndlun úrgangs 2013-2024. Úrgangsstjórnun til framtíðar. sótt 16.03.2014 á http://www.umhverfisraduneyti.is/media/PDF_skrar/Landsaaetlun-2013-2024-(utgafa).pdf

Allar myndir í glærusýningum eru teknar af commons.wikimedia.org

 

Til kennara: Allar ábendingar eru vel þegnar og ef þú betrumbætir þetta námsefni þætti okkur gott að fá nýja útgáfu til birtingar

esteryj@hi.is  eða svavap@hi.is